Catherine Sadolin er höfundur bókarinnar Complete Vocal Technique sem er talin vera ein fremsta kennslubókin í heiminum sem nýtt er til söngkennslu og raddþjálfunar fyrir atvinnusöngvara. Þegar bókin kom út voru kynntar til sögunnar nýjar leiðir og aðferðarfræði til raddkennslu og hafa þessar aðferðir og rannsóknir hennar á röddinni valdið byltingu í nálgun á þessu sviði. Tæknin byggist á því að röddin og öll hljóð sem við getum látið frá okkur skiptast í mismunandi raddgíra sem ná yfir alla tónlistarstíla, frá klassískum söng yfir í þungarokk, eftir því hvernig þeim er blandað saman. Því er þessi söngtækni ekki eingöngu hugsuð fyrir einn tónlistarstíl heldur nytsamleg öllum söngvurum og þeim sem þurfa að nota röddinna í sinni vinnu. Bókin hefur verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál og mæla söngvarar, söngkennarar, læknar og talmeinafræðingar um allan heim með henni. Catherine Sadolin er eigandi og rekur söngskólann Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn þar sem þjálfun söngkennara/raddþjálfa í þessari tækni fer fram.

Frekari upplýsingar um tæknina, rannsóknir og Complete Vocal Institute er að finna á completevocalinstitute.com