UM OKKUR

Vocal Art er skóli í raddbeitingu stofnaður árið 2015. Markmið skólans eru tvíþætt, annars vegar er Vocal Art söngskóli sem leggur áherslu á að einstaklingur geti þjálfað rödd sína og náð að blómstra í öllum markmiðum sínum tengd söng. Hinsvegar leggur Vocal Art einnig áherslu á heilbrigða raddbeitingu og kennir einstaklingum sem nýta röddina sem atvinnutæki hvernig nýta á röddina rétt og hafa grípandi framkomu.

Við leitumst við að leiðbeina öllum þeim sem hafa áhuga á því að bæta raddbeitinguna sína, auka öryggið í röddinni, kanna alla möguleikana sem röddin býr yfir og vilja blómstra og ná sínum persónulegum markmiðum í söng og tali. Með því að vinna að heilbrigðri raddbeitingu með Complete Vocal Technique getur maður losnað við hæsi og önnur óþægindi í röddinni, öðlast meiri kraft og úthald, víkkað raddsviðið, náð hærri/lægri tónum og almennt betri stjórn á röddinni.

Við leggjum einnig ríka áherslu á hvernig við erum að koma skilaboðunum frá okkur til áhorfandans eða þess sem er að hlusta. Talarðu mónótónískt eða ertu að nýta hin mismunandi blæbrigði í röddinni? Nærðu á fanga athygli fólks eða á það til að dotta fram á borðið þegar það er að hlusta á þig? Framkallarðu gæsahúð hjá áhorfendum með túlkun þinni og tjáningu? Einnig er farið í markmiðasetningu, hvernig á að koma sér á framfæri og víkka út þægindarammann, auka sjálfstraustið og gefin ráð við að takast á við sviðsskrekk.
Hjá Vocal Art vinnum við í öllu ofantöldu ásamt því að vinna með þarfir og óskir hvers og eins.

Stofnendur skólans

Arna Rún Ómarsdóttir

Arna Rún útskrifaðist sem viðurkenndur Complete Vocal Technique (CVT) kennari við Complete Vocal Institute (CVI) vorið 2015. Hún byrjaði að starfa sem söngkennari og raddþjálfari árið 2012 hjá Complete Vocal Stúdíó þegar hún hóf nám í CVI og tók svo við rekstri þess skóla árið 2013 til loka 2015.

Á menntaskólaárunum fékk Arna áhuga á rannsóknum og vísindum sem leiddi hana í BS-nám í Líffræði við Háskóla Íslands. Eftir að því lauk hélt hún áfram í mastersnám og kláraði MS-próf við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2011. Þrátt fyrir áhugann á vísindum var söngur og tónlist fastur punktur í hennar lífi frá unga aldri. Fyrstu kynni hennar af söngnámi voru við Nýja söngskólann Hjartansmál (nú Söngskóli Sigurðar Demetz) þar sem hún lauk 3. stigi í klassískum einsöng. Meðfram mastersnáminu hóf Arna nám í Tónlistarskóla FÍH og lauk þar Miðprófi í Jazz söng árið 2011. Í FÍH kynntist Arna Complete Vocal Technique að alvöru. Það fyrsta sem heillaði hana við þessa söngtækni var það að CVT er byggð á rannsóknum og vísindum sem snúast að röddinni og heilbrigði hennar. Hún sá einnig mikla möguleika í tækninni til að kenna fólki að læra heilbrigða raddbeitingu á skýran og skilvirkan hátt.

Á sínum ferli sem söngkennari og raddþjálfi hefur Arna öðlast yfirgripsmikla þekkingu á kennslu tengdri röddinni þar sem hún hefur kennt söngvurum af öllum reynslustigum, frá algjörum byrjendum til atvinnusöngvara, sem og haldið námskeið í heilbrigðri raddbeitingu fyrir ýmsa aðila m.a. þjálfara Dale Carnegie.

Þórunn Erna Clausen

Þórunn Erna Clausen leik- og söngkona útskrifaðist sem leikkona frá Webber Douglas Academy í London árið 2001 og lærði þar söngleikjasöng. Í kjölfarið stundaði hún nám í klassískum söng við Söngskólann í Reykjavík ásamt því að syngja víða popp, rokk ofl. Hún lauk eins árs söngnámi frá Complete Vocal institute í Kaupmannahöfn vorið 2014. Hún stundar um þessar mundir nám í 3 ára söngkennara/raddþjálfara námi við Complete Vocal Institute.

Sem leikkona á Þórunn mörg hlutverk að baki en meðal hlutverka og leiksýninga í Þjóðleikhúsinu má nefna Ragnheiði Birnu, í Þetta er allt að koma, í leikstjórn Baltasars Kormáks, Sitji Guðs Englar, Gott kvöld, Leitin að jólunum og Syngjandi í rigningunni. Hún lék Nansí í söngleiknum Olíver hjá Leikfélagi Akureyrar. Hjá Borgarleikhúsinu hefur Þórunn leikið í Bastörðum og Gulleyjunni, Söngvaseið, Fjölskyldunni og hlutverk Lilith í Faust í leikferð Borgarleikhússins og Vesturports til Kóreu 2011. Hún var einnig aðstoðarleikstjóri í sýningunum Fjölskyldunni og Galdrakarlinum í Oz. Önnur verkefni eru fjölmörg m.a. einleikurinn Ferðasaga Guðríðar, söngsýningin Le Sing og hlutverk í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, eins og Leitinni að Sveppa og Gói bjargar málunum, Ástríði 2, Spaugstofunni, Mannaveiðum og nýverið í Rétti 3 á Stöð 2, Ófærð og bandarísku sjónvarpsþáttunum Documentary Now sem sýndir voru Vestanhafs haustið 2015.
Þórunn var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í Dýrlingagenginu sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur og tvívegis til Edduverðlaunanna fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Dís og þáttunum Reykjavíkurnætur.

Þórunn hefur leikstýrt töluvert hjá áhugaleikfélögum og Menntaskólum ásamt því að hafa fengist við söng, textagerð, lagasmíð og sviðsetningar utan leikhússins m.a. í Söngvakeppni sjónvarpsins og átt þó nokkra söngtexta í keppninni. Þar af má nefna lagið Hugarró sem Magni Ásgeirsson söng og náði miklum vinsældum árið 2012. Þórunn var einnig textahöfundur Eurovision framlags okkar Íslendinga árið 2011 Aftur heim/ Coming home sem Vinir Sjonna fluttu í Dusseldorf, ásamt því að sviðsetja atriðið í keppninni. Hún hefur einnig starfað samhliða sem útvarpskona á Bylgjunni síðustu misseri.

Þórunn Erna gaf nýverið út sitt eigið lag og texta Lítið hjarta sem hljómar nú á helstu útvarpsstöðum landsins og er með fleiri í bígerð.